Fara á efnissvæði

PERSÓNUVERNDARSTEFNA

Almennt

Inkasso ehf er innheimtufyrirtæki og starfar skv. innheimtulögum nr. 95/2008, á grundvelli starfsleyfis frá Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands. Fyrirtækið vinnur með persónuupplýsingar og er ábyrgðaraðili þeirrar vinnslu skv. lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Fyrirtækið hefur persónuvernd að leiðarljósi og virðir persónuvernd eftir fremsta megni í öllum sínum samskiptum. Vinnsla fyrirtækisins á persónuupplýsingum byggir fyrst og fremst á lagaskyldu sem hvílir á því við innheimtustörf. Að öðru leyti byggir vinnslan á samningi við kröfuhafa, lögmætum hagsmunum eða samþykki greiðanda.

Uppruni persónuupplýsinga

Fyrirtækið fær persónuupplýsingar frá kröfuhöfum, fyrirtækjum sem halda utan um vanskilaskrá (t.d. Creditinfo), Þjóðskrá og öðrum opinberum stofnunum, greiðendum, öðrum aðilum að málum eða þriðja aðila vegna meðferðar mála. Kröfuhafar eru sjálfstæðir ábyrgðaraðilar þeirra persónuupplýsinga er þeir láta Inkasso í té og bera ábyrgð á réttleika þeirra upplýsinga.

Notkun persónuupplýsinga

Inkasso notar persónuupplýsingar fyrst og fremst við þjónustu í þágu viðskiptavina félagsins í þeim tilgangi að innheimta kröfur. Við innheimtuna er sú þjónusta einkum fólgin í vinnu við framgang innheimtumála, svo sem með rafrænni innheimtu hjá greiðendum, samskiptum við kröfuhafa og greiðendur, viðtöku og skilum á greiðslum og svo framvegis. Í framangreindum tilgangi eru persónuupplýsingar eins og t.d. símanúmer, netföng, heimilisföng eða aðrar tengiliðaupplýsingar notaðar, meðal annars við útsendingu innheimtutilkynninga til greiðenda og annarra samskipta.

Persónuupplýsingar sem eru varðveittar

Fyrirtækið vinnur við með eftirfarandi upplýsingar eftir því sem við á, byggt á eigin ákvörðun um vinnsluna:
Nöfn, kennitölur, heimilisföng, netföng, símanúmer, hjúskaparstöðu, fjölskyldunúmer, starfsheiti, fastanúmer bifreiða, fastanúmer fasteigna, heilsufarsupplýsingar, upplýsingar um vanskil.
Fyrirtækið geymir upplýsingar eins lengi og þörf er á vegna meðferðar mála og í samræmi við kröfur annarra laga eins og lög um tekjuskatt, lög um bókhald og lög um fyrningu kröfuréttinda. Fyrirtækið og starfsmenn þess eru bundnir þagnarskyldu um persónuhagi og rekstrar- eða viðskiptamál og um önnur atriði sem þeir fá vitneskju um í innheimtustarfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli máls. Persónuupplýsingum er eytt um leið og þeirra er ekki þörf lengur.

Afhending persónuupplýsinga til þriðja aðila

Fyrirtækinu kann að vera nauðsynlegt eða skylt að afhenda persónuupplýsingar til þriðja aðila, svo sem opinberra aðila, lögmanna, kröfuhafa eða samstarfsaðila okkar, þar á meðal Gjaldheimtunni ehf. Þegar afhending upplýsinga er vegna samstarfs við þriðja aðila sem við berum ábyrgð á, fer afhendingin eingöngu fram á grundvelli vinnslusamnings.

Viðkvæmar persónuupplýsingar

Að meginstefnu til varðveitum við ekki viðkvæmar persónuupplýsingar svo sem um uppruna, stjórnmálaskoðanir, trú eða lífsskoðun, stéttarfélagsaðild, heilsufar eða kynhneigð. Hins vegar kunna upplýsingar, um t.d. heilsufar, að skipta máli við meðferð máls og er slíkum upplýsingum þá jafnan miðlað til okkar frá greiðanda eða aðila á hans vegum. Við þær aðstæður varðveitum við þær upplýsingar með samþykki greiðandans. Slíkt samþykki má ávallt draga til baka. Einnig kann vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga að vera nauðsynleg við hagsmunagæslu í þágu viðskiptavina félagsins og byggir hún þá á heimild í lögum.

Sjálfvirk ákvörðunartaka

Starfsemi okkar byggir ekki á sjálfvirkri ákvörðunartöku. Við nýtum hins vegar sjálfvirka ferla til undirbúnings ákvarðanatöku, sem er þó aldrei sjálfvirk. Þetta hefur því ekki áhrif á réttindi greiðenda eða skyldur.

Vefkökur og heimasíða

Vissum gerðum upplýsinga er safnað þegar farið er inn á heimasíðu fyrirtækisins. Þar er notast við fótspor til að fylgjast með hvernig vefsíðunni vegnar og hvað það er helst sem gestir heimsækja. Nauðsynlegar vefkökur eru okkur ómissandi til að vefsíðan virki eins og ætlast er til og til innskráningar á greiðendavefinn. Aðrar vefkökur eru notaðar til að fylgjast með afköstum og frammistöðu vefsíðunnar og til að merkja sérstaklega hluta vefsíðunnar sem hafa með heimsókn notandans að gera. Þær safna engum upplýsingum sem hægt er að auðkenna notandann með.

Réttindi greiðenda

Greiðandi á rétt á því að fá upplýsingar um hvaða persónuupplýsingar eru geymdar um hann, ásamt því að fá leiðréttingu skráningar ef upplýsingarnar eru rangar, verði leiðréttingu komið við. Í vissum tilfellum á greiðandi rétt á því að tilteknum upplýsingum verði eytt þó tímamarki geymslu hafi ekki verið náð. Greiðandi getur jafnframt óskað eftir að upplýsingum sé eytt þegar geymsla þeirra er ekki nauðsynleg til að uppfylla lagaskyldu eða halda uppi kröfu. Greiðandi getur einnig átt rétt á því að vinnsla sé takmörkuð við tilteknar upplýsingar. Í þeim tilvikum sem vinnsla persónuupplýsinga er byggð á samþykki greiðanda, á hann alltaf rétt á að draga samþykkið til baka. Afturköllun á samþykki hefur þó ekki áhrif á þá vinnslu sem hefur átt sér stað þá þegar eða þá vinnslu sem byggir á öðrum vinnsluheimildum. Greiðandi getur beint til okkar fyrirspurnum um vinnslu persónuupplýsinga og réttindi hans á netfangið personuvernd@inkasso.is Ábyrgðaraðili persónuupplýsinga er Inkasso ehf., kt. 630413-0360, Laugavegi 182, Reykjavík. Greiðanda er ávallt heimilt að beina erindi eða kvörtun til Persónuverndar í samræmi við lög nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Á heimasíðu Persónuverndar, personuvernd.is, er einnig að finna frekari upplýsingar og leiðbeiningar um réttindi og skyldur skráðra aðila.