Fara á efnissvæði
Fréttir

Göngum hægt um dyr neyslugleðinnar

28. nóvember 2024
Eru framtíðarskuldir þínar á tilboði í dag?
Göngum hægt um dyr neyslugleðinnar

Í nóvember í fyrra vöktum við athygli á þeirri skuldbindingu sem neytendur takast oft á hendur á tilboðsdögum sem nú standa sem hæst. Þetta gerðum við með auglýsingum undir yfirskriftinni "Eru framtíðarskuldir þínar á tilboði í dag?"

Markmið auglýsinganna var að fá fólk til að staldra við og hugsa áður en skyndiákvarðanir um kaup voru teknar. Því er skemmst að minnast að auglýsingarnar vöktu athygli og umtal.

Þó svo að Seðlabankinn hafi byrjað að lækka vexti, sem er jákvætt, hefur róðurinn klárlega þyngst frá því í fyrra. Við minnum því aftur á að það er ákveðin mótsögn í því að hægt sé að spara með því að eyða eins og mörg tilboð, sem nú eru borin á borð landsmanna, gefa til kynna. Inkasso skorar því aftur á neytendur á að vera vel meðvitaða um eigin fjárhagsstöðu og ganga hægt um dyr neyslugleðinnar nú þegar tilboðsdagar standa sem hæst.

Okkar markmið er að leysa mál þeirra greiðenda sem einhverra hluta vegna hafa ekki náð að greiða reikninga á réttum tíma á lausnamiðaðan og manneskjulegan hátt. Við bendum á að við veitum ráðgjöf auk þess að geta oft boðið greiðslufrest eða greiðsludreifingu með það að markmiði að lágmarka kostnað og gefa greiðendum tækifæri til að rétta úr kútnum.  

Kær kveðja Inkasso teymið!